ALAVIS
December 30, 2015

Ananasfrómas

Þessi eftirréttur er alltaf á boðstólnum hjá okkur á aðfangadag og einnig á gamlárskvöld. Þetta er allra besti eftirréttur fyrr og síðar. Það skemmir heldur ekki fyrir hvað hann er ótrúlega einfaldur!

Uppskrift:

1 heildós ananassafi eða 2 litlar frá Gestus (mér finnst ananassafinn frá þeim bestur).5 egg.250 gr. sykur.1/2 l rjómi (þeyttur).10 blöð matarlím.

Öll hráefnin í þessa uppskrift færðu í Krónunni.

Aðferð:

Byrjið á því að þeyta egg og sykur þangað til blandan verður létt og ljós.Þeytið því næst rjómann og blandið saman við eggja- og sykurblönduna með sleif.Sigtið ananassafann frá bitunum og hellið út í.Næst er komið að því að bræða matarlímið í smá ananassafa (best að bræða eitt blað í einu) og hella saman við í lokin í mjórri bunu og hræra stöðugt í á meðan. Passið að matarlímið fari ekki sjóðheitt út í, heldur vel volgt. Það má ekki vera farið að stífna.

Þið getið annað hvort hellt öllu í eina, stóra skál eða nokkrar litlar. Ef þið viljið gera smá stemmningu við matarborðið þá er tilvalið að skella einni möndlu ofan í og sá sem fær möndluna fær möndlugjöf 🙂
Látið stífna í kæli í nokkrar klukkustundir.
Ég vona að þetta smakkist vel!:)