ALAVIS
September 1, 2015

Beikonvafðar kjúklingabringur með dásamlegri fyllingu

Fylling:

50 gr. smjör, 3 laukar, 150 gr. beikon (skorið í bita), 6 hvítlauksrif, ½ blaðlaukur, 6-7 sveppir, 30 gr. salvía (smátt söxuð), smá kreista af sítrónusafa, 100 gr. brauðteningar, 80 gr. furuhnetur, 30 gr. steinselja (smátt söxuð), ½ poki spínat, 500 ml. rjómi.

Aðferð við að gera fyllinguna:

Smjör sett á pönnu & laukur brúnaður í 7 mínútur, þá er beikoni bætt saman við og látið malla í aðrar 7 mínútur. Blaðlauk, hvítlauk, salvíu, sveppum, sítrónusafa, furuhnetum og brauðteningum er næst bætt saman við og látið malla í 3 mínútur. Þá er komið að því að bæta spínati og steinselju út í ásamt rjómanum. Fyllingin er látin malla í 5 mínútur.

Mér finnst best að blanda spínatinu og steinseljunni smátt og smátt saman við, ásamt því að hræra vel í á meðan.

Fullt af grænni hollustu saman við

Kjúklingur:

50 gr. smjör til steikingar, 4-6 kjúklingabringur, beikon sneiðar til þess að vefja utan um bringurnar.

Aðferð:

Stillið ofninn á 200°C og setjið smjörið á pönnuna, bringurnar eru steiktar í 3-4 mínútur á hvorri hlið. Næst eru bringurnar skornar í tvennt, fyllingin sett innan í og beikoninu vafið utan um (gott að nota tannstöngla til þess að halda beikoninu). Þá er komið að því að setja bringurnar í eldfast mót með álpappír yfir og inn í ofn í 40 mínútur. Mér finnst gott að taka álpappírinn af síðustu 15 mínúturnar til þess að beikonið verði stökkt. 

Meðlæti – Sósan:

500 ml. rjómi, 400 ml hvítvín, 3 skalottlaukar, 2 msk. smjör, 1 kjúklingakraftur, salt og pipar, ásamt smá sósulit.

Aðferð:

Laukurinn er steiktur upp úr smjöri í stutta stund og hvítvíni bætt út í (hitinn lækkaður rétt á meðan). Þá er kjúklingakrafturinn settur út í sósuna ásamt rjómanum. Látið malla í nokkrar mínútur og smakkið til með salti og pipar. Ef þið viljið hafa sósuna brúnni þá er minnsta mál að setja smá sósulit saman við.

Meðlæti – Sætar kartöflur:

Kartöflurnar eru skrælaðar, skornar í sneiðar og settar í eldfast mót. Olífuolíu er hellt yfir og kryddaðar með salti og pipar.