May 9, 2017
Karamellukjúklingur

Ég gerði þennan kjúklingarétt um daginn en hann er bragðmikill & svolítið sætur á bragðið. Ég útbjó einnig kartöflugratín til þess að hafa með & mér fannst þetta passa vel saman.
Allt sem þarf:
3 kjúklingabringur
510g BBQ sósa
1 dós ananassafi
4 kramin hvítlauksrif
1 msk rifið engifer
1 dl hunang
100g púðursykur
Íslenskt smjör til steikingar

Aðferð: Byrjið á því að skera bringurnar í passlega stóra bita. Takið næst fram stóra skál & útbúið marineringuna. Í henni er BBQ sósa, ananassafi & hvítlauksrif ásamt engiferi, hunangi & púðursykri. Hrærið þessu vel saman & setjið kjúklinginn út í. Mér finnst best að láta kjúklinginn liggja í marineringunni í 2-4 klst (í lokuðu íláti) inni í ísskáp fyrir eldun.

Steikið kjúklinginn þar til hann byrjar að brúnast & orðinn karamelliseraður. Hellið sósunni þá yfir & leyfið þessu að malla í nokkrar mínútur til viðbótar á miðlungs hita. Berið fram með t.d. salati & kartöflugratíni.

Hérna er uppskriftin af gratíninu sem ég var með..
Allt sem þarf:
Kartöflur
250ml rjómi
1 laukur
1 Óðals cheddar ostur

Aðferð:
1. Hitið ofninn í 180°C (undir & yfir hiti).
2. Skrælið kartöflurnar, skerið þær í sneiðar & raðið í botninn á eldföstu móti.
3. Saxið laukinn smátt & dreifið yfir kartöflurnar.
4. Setjið Cheddar ostinn í matvinnsluvél þar til hann er orðinn að kurli & stráið yfir allt.
5. Hellið rjómanum yfir.
6. Eldið kartöflugratínið í 1 klst.
Ég vona að þetta smakkist vel:)
![]()
![]()
![]()
![]()
![]()
![]()
![]()