ALAVIS
April 11, 2017

PÁSKAMARENGS

Apríl er einn af uppáhalds mánuðunum mínum af mörgum ástæðum. Aðal ástæðan er auðvitað sú að Ísabella mín á afmæli í þessum mánuði & þá er líka svo stutt í bestu mánuði ársins maí, júní, júlí & ágúst. Þar sem páskarnir lenda akkurat á afmælisdeginum hennar Ísabellu í ár & margir út úr bænum, þá ætlum við að halda afmælisveislu fyrir hana þann 23. apríl. Ég veit ekki hvor er spenntari fyrir því ég eða hún! Mér finnst ótrúlega gaman að halda afmælisveislur. Vildi óska að ég gæti gert það oftar:)
Ég bakaði eina Páskamarengstertu til þess að gæða sér á yfir páskana. Það er svo einfalt að búa til margens & aðeins þrjú hráefni fyrir botnana. Stundum hef ég gert karamellusósu til þess að hella yfir en núna ákvað ég að breyta til & setja súkkulaði páskaegg.
Hérna er allt sem þarf fyrir botnana:

6 stk eggjahvítur, 400 g púðursykur, 1 tsk lyftiduft.
Aðferð:

Hitið ofninn í 150°C (blástur) & setjið smjörpappír á tvær kringlóttar bökunarplötur.Stífþeytið eggjahvítur þar til þær verða eins & á myndinni hér að neðan. Tekur sirka 5 mínútur.
Bætið púðursykrinum saman við hægt & rólega. Ein msk í einu & þeytið á milli. 
Í lokin er lyftiduftið sett saman við & hrært örlítið meira.
Setjið marengsinn á bökunarplöturnar & gerið tvo jafnstóra hringi.
Bakið marengsinn í 1 klst & látið kólna alveg áður en þeyttur rjómi er settur á milli & ofan á.
Hér er það sem ég notaði á milli botnanna & ofan á. Rjómi, Mini eggs frá Cadbury & 70% súkkulaði.
Hérna er uppskrift að Karamellusósu fyrir þá sem vilja hella henni yfir:

100 g sykur, 100 g smjör, 1 dl rjómi. 

Setjið allt í lítinn pott & sjóðið saman í u.þ.b. 5 mínútur á miðlungs hita. Hrærið stöðugt í allan tímann á meðan karamellusósan þykknar.
Ég vona að þetta smakkist vel & gleðilega páska:)