ALAVIS
December 11, 2015

Sörur

Sörukökur eru í algjöru uppáhaldi hjá mér! Ég get borðað endalaust mikið af þeim en ég held að galdurinn sé þessi dásamlega, mjúka fylling. Botninn er svipaður og marengs nema notaður er flórsykur í stað venjulegs sykurs, ásamt möndlum.

Uppskrift:

260 gr. möndlur, 230 gr. flórsykur, 4 eggjahvítur.

Krem:

120 gr. sykur, 1 dl vatn, 4 eggjarauður, 1 ½ msk. kakó, 260 gr. mjúkt, íslenskt smjör.

Súkkulaði til að hjúpa.

Hérna kemur mín aðferð:

Hitið ofninn í 180°C. Setjið möndlurnar í matvinnsluvél og malið þær vel. Stífþeytið eggjahvíturnar í topp. Til þess að vita hvort þær séu tilbúnar getið þið prófað að hvolfaskálinni og ef þær hreyfast ekkert eru þær tilbúnar. Ef þær renna til þarf að þeyta meira. Sigtið því næst flórsykurinn út á stífþeyttu eggjahvíturnar og setjið einnig möndlurnar saman við og hrærið varlega saman með sleif. Notið teskeið til þess að setja deigið á bökunarpappírinn í þeirri stærð sem þið kjósið (gott að hafa í huga að þær stækka aðeins í ofninum). Bakið í 11 – 12 mínútur.

Krem:

Sjóðið vatnið og sykurinn saman í potti þar til blandan fer að þykkna (sirka 7-8 mínútur). Stífþeytið eggjarauðurnar á meðan, þar til þær verða kremaðar. Hellið sykurleginum svo varlega út í þegar hann er tilbúinn og haldið áfram að þeyta í u.þ.b. 1 mínútu. Næst er mjúka smjörinu og kakóinu bætt saman við með sleikju þar til allir kekkirnir eru farnir. Smyrjið kreminu á kalda botnana og kælið vel áður en þið hjúpið kökurnar með súkkulaði.

Geymið þær helst í frysti eða kæli.

Ég vona að sörurnar smakkist vel.