ALAVIS
October 23, 2018

Kjúklingur í villisveppasósu

Fyrir stuttu síðan prófaði ég að gera nýjan kjúklingarétt í sveppasósu með stökkum beikonbitum og blaðlauk. Hann smakkaðist mjög vel og þess vegna langaði mig að deila uppskriftinni með ykkur. Ég er mjög mikið fyrir smjörsteikta sveppi og beikonbragð og þess vegna datt mér í hug að það gæti verið gott að blanda þessu tvennu saman og bæta við rjóma og rjómaosti. Villisveppaosturinn gerir réttinn svo enn bragðmeiri.

Þessi réttur er fljótlegur og þægilegur. Mér finnst mjög gott að hafa ristað brauð með.

Hérna kemur uppskriftin:

➺ 1 bakki kjúklingalundir

➺ 1/2 bréf beikon

➺ 1 bakki sveppir

➺ 1/2 askja rjómaostur frá Gott í matinn

➺ 1 rjómi frá Gott í matinn

➺ 1 Villisveppaostur

➺ Íslenskt smjör til steikingar

➺ Steinselja

➺ Blaðlaukur

Krydd: 

Salt, pipar, best á kjúklinginn, sveppakraftur (1 teningur).

Aðferð:

1. Takið fram tvær pönnur (eina litla og aðra stóra).

2. Steikið kjúklinginn upp úr íslensku smjöri þar til hann er orðinn gylltur á litinn.

3. Steikið beikonið á minni pönnunni þar til það er orðið stökkt og hellið yfir kjúklinginn.

4. Hellið rjómanum yfir kjúklinginn og beikonið.

5. Setjið Villisveppaostinn og rjómaostinn út í rjómann og látið bráðna.

6. Smjörsteikið sveppina á litlu pönnunni þar til þeir eru farnir að brúnast og hellið út á stærri pönnuna.

7. Steikið blaðlaukinn á vægum hita á litlu pönnunni og bætið við smá íslensku smjöri (óþarfi að þrífa pönnuna á milli). Þegar blaðlaukurinn er orðinn mjúkur er honum bætt út á stærri pönnuna með öllum hinum hráefnunum.

8. Setjið steinselju yfir réttinn í lokin áður en þið berið hann fram. Mér finnst það gera réttinn girnilegri og svo passar hún fínt með.

Ég vona að þetta smakkist vel:)